*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 15. júní 2019 13:31

Niðursveifla afhjúpar galla

Ný fjármálaáætlun og breytt fjármálastefna bíða samþykkis Alþingis og eiga að tryggja ríkinu svigrúm til að bregðast við niðursveiflunni.

Kristján Torfi Einarsson
Áhyggjur eru um að ný fjármálaáætlun og fjármálastefna vanmeti niðursveifluna og kunni að binda hendur stjórnvalda til að bregðast rétt við samdrættinum.
Haraldur Guðjónsson

Aldrei í hagsögu landsins hefur fjármálaráðherra átt jafn góða og gjöfula tíð eins og síðustu fimm ár. Frá árinu 2011 hefur hagvöxtur mælst ríflega 30% en á sama tíma hafa tekjur hins opinbera vaxið um 45% á föstu verðlagi. Margt bendir þó til að þessi gullöld sé nú að baki. 

Afleiðingar loðnubrests og mikilla breytinga í umhverfi flugsamgangna til landsins eru hægt og bítandi að koma í ljós. Atvinnuleysi er að aukast, væntingar eru í sögulegu lágmarki, efnahagshorfur hafa versnað í helstu viðskiptalöndum Íslands og blikur eru á lofti um þróun margra lykilhagvísa á borð við einkaneyslu og fjárfestingar fyrirtækja. Greinendur eru á einu máli, við erum á leið í niðursveiflu og í fyrsta sinn síðan 2011 er útlit fyrir að landsframleiðsla dragast saman í ár. 

Samkvæmt endurskoðaðri fjármálaáætlun sem liggur nú fyrir þinginu er reiknað með að afkoma ríkisins versni um 40 milljarða króna frá áætluninni sem lögð var fram síðastliðinn mars, fimm dögum áður en fall Wow varð að veruleika. Afkomuspánni til grundvallar liggur þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 10. maí sl. en í henni voru hagvaxtarhorfur færðar úr 1,7% niður í 0,2% samdrátt. 

Athygli vakti hve mikið ber á milli hagspáa sem komið hafa út eftir að framboðsskellurinn í millilandaflugi reið af í vetur. Þótt allar spárnar séu samhljóma um að landsframleiðsla muni dragast saman í ár er mikill munur á hvað greinendur reikna með að niðursveiflan verði djúp og löng. Svartsýnasta spáin hljóðar upp á 1,9% samdrátt í ár (Arion banki). Sú bjartsýnasta reiknar með 0,2% samdrætti (Hagstofa Íslands) en forsendur nýrrar fjármálaáætlunar eru samkvæmt lögum einmitt teknar úr hagspá Hagstofunnar. 

Eftir að Isavia birti í síðustu viku uppfærða farþegaspá fyrir árið í ár fengu áhyggjur af því að niðursveiflan væri vanmetin í fjármálaáætluninni byr undir báða vængi. Isavia reiknar til að mynda með að erlendum ferðamönnum muni fækka um 16,5% í ár sem er hálfri prósentu meira en svartsýnasta hagspáin gerir ráð fyrir. 

Ný fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2023 og  þingsályktun um breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar bíða afgreiðslu þings. Stefnt er að því að afgreiða bæði málin fyrir þinglok því bæði stefnan og áætlunin liggja til grundvallar allri vinnu við gerð nýs fjárlagafrumvarps sem hefðin kveður á um að sé kynnt á fyrsta degi þingsins hvert haust. 

Eins og áður sagði mun afkoma ríkissjóðs versna um 40 milljarða króna samkvæmt fjármálaáætluninni sem er nú til meðferðar í þinginu. Ef áætlunin tæki mið af svartsýnni spá Arion banka myndi afkoman versna um nær tvöfalda upphæð eða 70-80 milljarða króna. Þar sem fyrstu gögn um farþegafjölda og gjaldeyrisveltu hafa verið í samræmi eða verri en svartsýnar spár gerðu ráð fyrir telja greinendur vaxandi líkur á að ný fjármálastefna þurfi að líta dagsins ljós strax á næsta ári.     

Breytt fjármálastefna var afgreidd úr fjárlaganefnd í gær og bíður nú annarrar umræðu í þinginu. Nefndin hefur einnig nýja fjármálaáætlun til meðferðar í nefndinni og segir Haraldur Benediktsson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfsstæðisflokksins, að hún verði afgreidd úr nefndinni á næsta fundi hennar. Hann segir jafnframt að ábendingar um að hagvaxtarhorfur kunni að vera vanmetnar hafi verið til umræðu í nefndinni. 

„Vegna þessara ábendinga lagði nefndin til að svigrúm stjórnvalda til að bregðast við versnandi efnahagshorfum verði aukið. Upphaflega hljóðaði svigrúmið upp á 0,4% samdrátt landsframleiðslu sem jafngildir því að afkoman á hverju ári geti orðið 12-15 milljörðum króna lakari en áætlunin  gerir ráð fyrir. Við lögðum til að þetta svigrúm yrði tvöfalt meira eða sem nemur 0,8% samdrætti og 25- 30 milljarða króna tekjutapi ríkissjóðs. Þá er ótalið það svigrúm sem afgangur af rekstri síðustu fjárlaga veitir okkur en hann hljóðaði upp á 33 milljarða króna. Að samanlögðu teljum við að svigrúmið sem þetta skapar muni gera okkur kleift að bregðast við lengri og dýpri niðursveiflu en forsendur áætlunarinnar kveða á um,“ segir Haraldur.  

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér