Valdimar Ármann
Valdimar Ármann
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Efnahagsniðursveifla í ríkjum heimsins gæti haft neikvæð áhrif á endurgreiðslur til Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninganna, segir Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA, í samtali við AFP fréttastofu. Hann segir að ef eignaverð lækki mikið sé mögulegt að sala á eignum Landsbankans dugi ekki til að endurgreiða Icesave.

AFP fjallar um stöðuna á Íslandi og möguleg áhrif niðursveiflu á alþjóðavísu. Haft er eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að í dag sé ólíklegt að ástandið hérlendis verði jafn slæmt og það varð í hruninu 2008. Ísland sé ekki jafn viðkvæmt fyrir breytingum ytra og það var árið 2008. Már segir að þegar þú sért þegar fallinn af tindi fjallsins alla leið í dalinn þá verði fallið aldrei jafn hátt, jafnvel þó þú sért byrjaður að klífa fjallið á ný.

Már segir að óstöðugleiki á erlendum mörkuðum geti haft áhrif hérlendis ef verulega hægir á efnahagsbata ríkja heimsins. Hann hafi þó ekki trú á að hér verði annað hrun, en áhrif á hagvöxt gera verið nokkur. Líklegasta útkoma fyrir Ísland sé að áformum um að fjarlægja gjaldeyrishöft verði frestað.

Einnig er haft eftir Önnu Borgþórsdóttur Olsen, hagfræðingi hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, að mögulegt sé að niðursveifla í Evrópu valdi verðlækkun á eignum gömlu bankanna, sem geti haft áhrif á endurgreiðslur til kröfuhafa, þar á meðal vegna Icesave. Hún er sammála því að gjaldeyrishöft gætu þurft að vera lengur við lýði vegna alþjóðlegrar niðursveiflu. Höftin virki í dag sem vörn gegn niðursveiflunni.