*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 3. desember 2013 16:29

Niðursveifla Nokia þyngdi rekstur Hátækni

Eigendur Hátækni juku hlutafé fyrirtækisins um 180 milljónir króna á árinu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins reyndist fyrirtækinu erfið.

Ritstjórn
Hátækni er með umboð fyrir farsíma frá Nokia.

Rétt tæplega 142 milljóna króna tap varð af rekstri Hátækni í fyrra og gerði það að engu 78 milljóna króna hagnað árið á undan. Rekstrartap var upp á rétt rúmlega 192 milljónir króna. 

Eignir Hátækni námu um síðustu áramót 673 milljónum króna. Á móti námu skuldir 613,5 milljónum króna og var eigið fé félagsins jákvætt um tæpar 60 milljónir króna. Hlutafé Hátækni var aukið í tvígang um 180 milljónir króna frá síðustu áramótum.

Dótturfélag Landsbankans hefur nú tekið yfir allt hlutafé félagsins. Olís er eigandi Hátækni. Eins og fram kom í yfirlýsingu Kristjáns Gíslasonar, stjórnarformanns Hátækni, hefur rekstur Hátækni verið erfiður undanfarin ár. Mestu munar um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Hátækni og niðursveiflu í farsímasölu. Hátækni er með umboð fyrir síma frá finnska farsímaframleiðandanum Nokia auk þess að vera umboðsaðili LG hér á landi. 

Nokia náði ekki vopnum sínum

Í yfirlýsingunni segir:

„Það var sannfæring stjórnar Hátækni að Nokia hefði styrkt stöðu sína hraðar með því að hefja einnig framleiðslu á Android snjallsíma, auk Windows síma. Til þess kom þó ekki eftir að Microsoft keypti Nokia og þykir okkur því ljóst að það muni taka einhvern tíma að Nokia nái vopnum sínum. Vegna þessa og hins að of kostnaðarsamt yrði að bíða eftir að Microsoft næði að vinna félagið upp, ákvað eigandinn að hætta að fleyta félaginu með innspýtingu nýs hlutafjár. Sala/yfirtaka félagsins til Landsbankans er því óumflýjanlegt framhald af þeirri ákvörðun, en Landsbankinn er stærsti kröfuhafi félagsins“.

Stikkorð: Olís Hátækni