Aðstæður hér á landi fyrir rekstur fyrirtækis í alþjóðlegum rekstri eru afar erfiðar: ákvarðanataka er illa ígrunduð og gripið til ráða sem hvergi þekkjast annars staðar. Eins og til að kóróna allt saman þarf Össur á að halda undaþágu frá gjaldeyrishöftunum. Annað eins þekkist hvergi, segir Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar.

Hann var afar harðorður í garð stjórnvalda og íslensks efnahagslífs á aðalfundi Össurar í fyrra og hefur tóninn lítið breyst síðan þá. Hann segir aðstæður hér hafa versnað til muna síðustu árin, í raun ógerning að reka fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri. Þá bæti ekki úr skák að Kauphöllin hafi þvingað fyrirtækið á markað hér aftur þrátt fyrir að stjórnin hafi samþykkt að afskrá félagið.

Aðstæður á borð við þær sem hér eru gera ekkert nema spilla fyrir, að mati Jacobsen: „Við erum þvinguð til að hlýða ýmsum óvenjulegum reglugerðum sem keppinautar okkar eru lausir við,“ segir hann.