Bretar sjá fram á allt að 7 prósentustiga hækkun tekjuskatts auk þess sem virðisaukaskattur verður lagður á vörur, svo sem ýmsar matvörur og bækur sem áður hafa borið lítinn eða engan virðisaukaskatt.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu National Institute of Economic and Social Research (NIES) hugveitunnar en stofnunin telur að ef ekki verður skorið verulega niður í útgjöldum ríkisins, sem engin áform eru um, verði nauðsynlegt að hækka fyrrnefnda skatta til að ná jafnvægi í rekstri breska ríkisins.

Tekjuskattur breska ríkisins  er nú 20% en stofnunin gerir ráð fyrir að tekjuskattur verði hækkaður í 27% á næstu 18-24 mánuðum.

NIES segir að það muni reynast breskum heimilum erfitt ef tekjuskattur verður hækkaður. Þá bitni það jafnframt á atvinnulífinu þar sem einkaneysla mun óhjákvæmilega dragast saman. Hins vegar hvetur stofnunin til þess að virðisaukaskattur verði ekki hækkaður, heldur lagður á fyrrnefndar vörur. Reyndar hvetur stofnunin til þess að sami virðisaukaskattur verði á öllum vörum, allt frá matvörum, eldsneyti, bókum og dagblöðum svo fátt eitt sé nefnt.

Martin Weale, framkvæmdastjór NIES segir í samtali við Telegraph að nauðsynlegt sé að jafnvægi komist á ríkisreksturinn. Ef ríkið muni ekki annars vegar auka tekjur sínar og hins vegar skera verulega niður horfi Bretar fram á það að verða fátækari og fátækari. Það muni meðal annars leiða til þess að lífeyrisgreiðslur Breta verði litlar í framtíðinni.

Bæði Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn hafa ítrekað að það sé vilji flokkanna til að skera niður í ríkisrekstri. Þrátt fyrir það segist Weale hafa litla trú á því að flokkarnir vilji ganga það langt í niðurskurðarhugmyndum að það dugi til að koma í veg fyrir fjárlagahalla.