*

föstudagur, 23. október 2020
Erlent 24. september 2020 15:55

Nífaldaði auð sinn og tók fram úr Ma

Zhong Shanshan er nú ríkasti maður Kína. Hann hefur auðgast um rúma 50 milljarða dala á árinu.

Ritstjórn
Zhong Shanshan er nú ríkasti maður Kína, sá annar ríkasti í Asíu, og 17. ríkasti í heimi, eftir að hafa auðgast ævintýralega á árinu.
Aðsend mynd

Vatnsflösku- og bóluefnisjöfurinn Zhong Shanshan varð í gær ríkasti maður Kína þegar hann tók fram úr stofnanda Alibaba, Jack Ma. Shanshan er nú metinn á 58,7 milljarða dala – um 8.100 milljarða króna – en samkvæmt frétt Bloomberg um málið hefur honum áskotnast tæp 90% þeirra auðæfa á þessu ári einu saman.

Aðeins hinn indverski Mukesh Ambani er nú ríkari en Shanshan í Asíu, og hann vermir 17. sætið yfir ríkustu menn veraldar. Shanshan er þekktur fyrir að halda sig utan stjórnmálanna og þess tengslanets sem þeim fylgir í Kína. Aðeins Jeff Bezos og Elon Musk hafa auðgast meira á árinu en hann í dölum talið.

Shanshan náði 20 milljörðum dala í kjölfar frumútboðs lyfjafyrirtækisins Beijing Wantai Biological Pharmacy Enterprise Co. Í apríl.

Frumútboð vatnsflöskufyrirtækisins Nongfu Spring í Hong Kong fyrr í þessum mánuði gekk síðan vonum framar, og kom Shanshan í hóp þriggja ríkustu manna Kína, en topplistinn er að mestu leyti skipaður tæknijöfrum.

Stikkorð: Jack Ma Zhong Shanshan