Kirsten Farage kona Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP) tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega í dagblaði um eiginmann sinn. Í viðtalinu sagðist hún hafa miklar áhyggjur af lífstíl hans þar sem hann drekkur og reykir of mikið, sofi ekki nóg, sleppi máltíðum og lifi á adrenalíninu. Farage sagði að lítill tími væri til fjölskyldulífs og að fjölskyldan fylgdist með Nigel í sjónvarpinu þegar þau vildu sjá hann.

Nigel Farage hefur verið með konuna sína á launum og hefur breska þingið greitt henni 27.000 pund á ári fyrir starf sem ritari á óhefðbundnum vinnutímum. Þetta gera rétt rúmar fimm milljónir króna. Hún sagðist taka starfinu mjög alvarlega og sitja frameftir á kvöldin í náttkjólnum við tölvuna. Í viðtalinu varði Farage vinnu sína og útskýrði að hún ynni mikið á kvöldin og um helgar, auk þess sem Nigel þyrfti á aðstoð hennar að halda þar sem hann væri eiginlega ólæs á tölvur og að það væri of seint fyrir hann að fara að læra á þær. Evrópuráðið hefur tekið ákvörðun um að Kirsten geti ekki lengur verið á ritaralaunum en hún telur þó að hún muni halda áfram að aðstoða eiginmann sinn eftir sem áður.

Í viðtalinu ræddi Farage einnig um umdeild ummæli Nigel Farage sem hafa haft áhrif á fjölskyldulífið. Hún sagði Nigel vera sáran yfir því að vera kallaður rasisti í kosningunum. Umdeildu ummælin hafa einnig ollið því að fjölskylduheimilið er núna umkringt girðingu og öryggismyndavélum. Fjölskyldan getur heldur ekki lengur farið í frí innan Bretlands vegna athygli fjölmiðla sem Farage þykir afar leiðinlegt.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér á vef breska dagblaðsins Daily Telegraph .