Leiðtogi United Kingdom Independence Party, eða sjálfstæðisflokks Bretlands, Nigel Farage hefur sagt af sér formennsku.

Gerir hann þetta í kjölfar kosningaúrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi þar sem áratugalöng barátta hans fyrir því að landið segði sig úr Evrópusambandinu vann sigur á þeim sem vildu áframhaldandi aðild.

Vill líf sitt til baka

Sagðist hann telja sig hafa staðið við sinn hluta, og hann gæti ómögulega gert neitt meira. „Það er rétt að nú ætti ég að stíga til hliðar.

Á meðan á kosningabaráttunni stóð sagðist ég vilja fá landið mitt til baka. Það sem ég er að segja núna er að ég vil líf mitt til baka. Og það bar byrjar núna strax“ sagði hann og gekk síðan rakleitt úr púltu án þess að svara spurningum.

Mun sitja áfram á þingi

Farage mun halda áfram að sitja á Evrópuþinginu sagðist jafnframt myndi styðja verðandi formann flokksins en hann hefur áður sagt af sér formennsku.

Gerðist það eftir að hann tapaði í síðustu þingkosningum fyrir breska þingið en síðan steig hann aftur í formannsstólinn þremur dögum síðar eftir hvatningu flokksmanna. „Mér mun ekki snúast hugur á ný, ég get lofað ykkur því“ sagði hann.

Við höldum á trompinu

Farage hefur á 20 árum breytt flokknum úr jaðarflokki sem litla athygli hefur fengið í stærsta flokk landsins á Evrópuþinginu sem jafnframt fékk 12,5% fyrir þingkosningarnar í maí 2015 í Bretlandi sem byggja á einmenningskjördæmum og sterkum tengslum sitjandi þingmanna við sín kjördæmi.

Sagðist Farage vilja viðhalda þrýstingi á næsta forsætisráðherra landsins að hann þyrfti að koma landinu út úr sameiginlegum markaði þess og takmarka innflutning. „Við þurfum forsætisráðherra sem áttar sig á því að við höldum á trompinu,“ sagði hann.