Nígeríumenn gagnrýndu í gær stjórnvöld í Washington fyrir að hafa ekki komið þeim til hjálpar við að vernda olíuauðlindir landsins og neytt þá til að kaupa vopn af öðrum þjóðum, m.a. Kínverjum. Atiku Abubakar, varaforseti Nígeríu, sagði í samtali við Financial Times að Bandaríkjamenn hefðu verið of svifaseinir við að vernda Niger Delta svæðið gegn uppreisnarmönnum.

Hann sagði að viðræður við Bandaríkin um öryggismál á svæðinu virtust ekki "ganga eins hratt og þróun mála gefur tilefni til" og að Nígeríumenn hefðu því leitað fanga hjá öðrum vopnaframleiðendum.

Heimildarmenn hjá nígerískum stjórnvöldum sögðu að Kína væri nú orðið einn af helstu seljendum vopna til Nígeríu. Þeir sögðu að á meðal nýs búnaðar sem keyptur yrði væru tugir eftirlitsbáta til að líta eftir mýrarsvæðum og lækjum, þaðan sem uppreisnarmenn gerðu árásir sínar.

Hátt settur embættismaður hjá nígeríska sjóhernum sagði að Nígeríumenn hefðu orðið fyrir vonbrigðum með tregðu bandaríska hersins til að bjóða meiri stuðning og að afar jákvætt væri að fjárfest hefði verið í fyrrnefndum kínverskum bátum. Sérfræðingar telja að bátarnir kunni að vera allt að 200 talsins.