Sportvörukeðjan Nike setur á markað 28. nóvember næstkomandi skó með sjálfvirkar reimar.

Skórnir eru gerðir af fyrirmynd myndarinnar Back to the Future II, en í myndinni fara söguhetjurnar fram til ársins 2015 þar sem slíkur búnaður var orðinn alvanalegur.

Koma á markað rétt fyrir jólavertíðina

Skórnir sem bera vörumerkið HyperAdapt munu því koma á markað nokkrum vikum fyrir aðaljólasöluna í Bandaríkjunum. Þeir verða fáanlegir í þrem mismunandi litum, en ekki hefur verið upplýst um verð.

Í mars síðastliðnum sýndi fyrirtækið skóna í fyrsta sinn, en í þeim er búnaður sem lagar skóna að fætinum sjálfvirkt. Auk þess eru tveir takkar á skónum sem gerir notendanum kleyft að herða eða víkka skóna utan um fótinn.

Hlutabréf Nike lækka

Á síðasta ári jókst sala Nike skóbúnaðar einungis um 2% í Norður Ameríku, en salan nam um 2,3 milljörðum Bandaríkjadala á fjárhagsárinu sem lauk 31. maí. Nemur það um 264 milljörðum íslenskra króna. Lítil sala er rakin til aukinnar samkeppni frá vörumerkjum eins og Under Armour og Adidas, þá sérstaklega þegar kemur að körfuboltaskóm.

Jókst sala fyrirtækisins á skóm á fjárhagsárinu þó um 9%, en töluvert dró úr henni miðað við söluaukninguna á þriðja ársfjórðungnum, þegar hún jókst um 16%. Á árinu hafa hlutabréf í Nike lækkað um 12%, sem er þvert á 4% hækkun Dow Jones vísitölunnar.

Fyrir samfélagsmiðlamenninguna

„Nike þarf eitthvað fyrir samfélagsmiðlamenninguna að fá kast yfir,“ segir skósérfræðingurinn Clyde Edwards.

Hér er hægt að sjá kynningarmyndband um skóna.