*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 3. júlí 2019 14:37

Nike tapar stuðningi vegna fánadeilu

Skór með 13 stjarna upphaflegum fána Bandaríkjanna teknir úr sölu því notaðir á tímum þrælahalds og af öfgahópum.

Ritstjórn
13 stjarna fáni Bandaríkjanna, sem einkaður er saumakonunni Betsy Ross, er oft notaður við hátíðleg tilefni, þar á meðal þjóðhátíðardag Bandaríkjanna 4. júlí, sem er á morgun.
epa

Arizonaríki í Bandaríkjunum hafa dregið til baka boð um 1 milljón dala stuðning við byggingu nýrrar verskmiðju í fylkinu eftir að fyrirtækið hætti dreifingu á nýjum skóm með upprunalegum fána Bandaríkjanna.

Um er að ræða 13 stjarna og þrettán randa útgáfu fánans sem kennd er við saumakonuna Betsy Ross frá tímum sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna. Er henni þakkað að hafa saumað fyrsta bandaríska fánann þó ekki séu allir á eitt sáttir með þá söguskoðun.

Ýmsir hópar hafa notað fánann, þar á meðal öfgasinnaðir þjóðernissósíalistar, en einnig hefur hann verið notaður til skiptis við núverandi fána Bandaríkjanna til að mynda við innsetningarathafnir ýmissa Bandaríkjaforseta.

Fordæmdi Doug Ducey ríkisstjóri fylkisins ákvörðun Nike um að taka skóna úr sölu í verslunum eftir kvartanir þess efnis að gamli 13 stjarna fáni Bandaríkjanna væri stundum notaður af hvítum þjóðernisöfgahópum. Sagði hann Nike hafa beygt sig fyrir pólítískum réttrúnaði.

Ruðningsstjarna sem vanvirti þjóðsönginn gagnrýndi fánann

Meðal þeirra sem gagnrýndu skóna var hinn umdeildi íþróttamaður úr NFL deildinni í bandaríska ruðningnum, Colin Kaepernick, sem Nike er styrktaraðili að, en hann er m.a. þekktur fyrir að hafa neitað að standa í virðingarskyni við bandaríska þjóðsönginn.

Skórnir sem eru sérútgafa áf Air Max 1 Quick Strike skóm félagsinss voru gefnir út í tilefni af 4. júlí, þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna. Eintök af skónum hafa selst á um 1.500 dali á ýmsum heimasíðum síðan ákvörðunin var tekin, eða 190 þúsund krónum.

Skórnir gætu móðgað einhverja

Nike sagði í yfirlýsingu að þeir hefðu hætt sölu á skónum því þeir hefðu áhyggjur af því að þeir „gætu óafvitandi móðgað og dregið úr hátíðarbrag á þessum degi þjóðarstollts“. Fyrrnefndur Kaepernick er sagður hafa móðgast yfir fánanum því hann væri tengdur þeim tíma í sögu Bandaríkjanna þegar þrælahald var enn viðgengið, líkt og víðast hvar í heiminum á þeim tíma.

Á síðasta ári varð hann andlit umdeildar auglýsingaherferðar fyrirtækisins sem markaði 30 ára afmæli Just do it slagorð fyrirtækisins, sem útleggjast mætti sem „Gerðu það bara“, á íslensku.

Nike sagt beygja sig fyrir rétttrúnaði og endurskoðun sögunnar

Doug Ducey ríkisstjóri í Arizona fyrir Repúblikanaflokkinn sagði í tísti að hann gæti vart hamið vonbrigði sín vegna hræðilegrar ákvörðunar Nike. „Ég skammast mín fyrir Nike,“ er meðal þess sem hann lét frá sér að því er BBC greinir frá.

„Í staðinn fyrir að fagna bandarískri sögu í vikunni sem við fögnum sjálfstæði þjóðarinnar hefur Nike að því er virðist ákveðið að Betsy Ross er ekki verð upphafningar, og hafa þeir beygt sig fyrir bylgju pólítísks rétttrúnaðar og endurskoðunarstefnu á sögunni.“

Seinna staðfesti ríkisstjórinn að 1 milljón dala, andvirði um 125 milljóna íslenskra króna styrkur úr sérstökum samkeppnissjóði Arizona fylkis hefði verið dreginn til baka. Sjóðnum, sem styrkurinn kom úr, er ætlað að draga fyrirtæki til eða hjálpa þeim að vaxa í fylkinu en verksmiðjan sem styrkurinn átti að ganga til á að búa til um 500 störf í fylkinu.

Ekki mikil neikvæðni hjá helstu viðskiptahópum

Fleiri hafa gagnrýnt ákvörðun Nike, þar á meðal öldungadeildarmaðurinn, og fyrrum forsetaframbjóðandi í forkosningum Repúblikana, Ted Cruz, sen tísti að Nike vildi einungis selja „strigaskó til fólks sem hataði bandaríska fánann“, og hafa ýmsir kallað eftir því að vörur fyrirtækisins verði sniðgengnar vegna ákvörðunarinnar.

En einnig hefur ákvörðunin hlotið stuðning frá ýmsum notendum á samfélagsmiðlum, og bendir ráðgjafinn Matt Powell að meðal þeirra sem styðji ákvörðunina sé kjarni þeirra lýðfræðilegu hópa sem fyrirtækið nær helst til. „Ég sé ekki marga táninga vera neikvæða út af þessu,“ sagði hann.