Jörð í Reykjanesbæ sem kölluð hefur verið "Nikel" jörðin hjá Miðnesheiði hefur verið sett í sölumeðferð hjá fjármálafyrirtækinu Virðingu. Það er Miðland ehf. sem er eigandi jarðarinnar, sem áður var notuð undir olíubirgðastöð hersins.

Ætlunin er að jörðin fari öll undir íbúabyggð. Elías Georgsson, stjórnarformaður Miðlands ehf. segir að á svæðinu þar sem olía hafði lekið í jarðveg vegna umsvifa hersins hafi farið fram hreinsun sem nú sé lokið og allur mengaður jarðvegur hefur verið fluttur í burtu. Elías segir þetta hafa verið umfangsmikla aðgerð en að sama skapi ekki flókna þar sem menn vissu hvar olía hafði lekið, en nú eru til mjög heildstæð gögn um svæðið eftir miklar rannsóknir.

Nikel jörðin svokallaða var upphaflega úr landi Vatnsness, en var tekið eignarnámi ásamt landi á Miðnesheiði á sínum tíma fyrir starfsemi hersins. Nikel nafnið tengist ekki málminum eins og margir halda heldur því að það var óbreyttur hermaður að nafni Nikel sem lést í slysi í Bandaríkjunum rétt áður en herdeild hans átti að koma til Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Herdeildin skýrði nafn búðanna sem reistar voru á landinu "Camp Nikel".

Áætlanir gera ráð fyrir að um helmingur svæðisins verði einbýlishúsalóðir og helmingur fyrir fjölbýli. Varðandi verð lóðanna þá er erfitt að segja til um hvað þær munu kosta en þó er búist við að þær verði ódýrari en nýjar lóðir í Reykjavík. Elías segir að meðalverð einbýlishúsalóða geti verið í kringum 9 milljónir.