Fjárfestar í Japan virðast kátir þessa dagana enda hefur gengi hlutabréfa hækkað nokkuð jafnt og þétt þar í landi upp á síðkastið. Nikkei-vísitalan í kauphöllinni þar hækkaði um 2,8% í nótt og fór hún yfir 14.000 stiga múrinn. Vísitalan hefur ekki verið hærri í að verða fimm ár eða síðan í júní árið 2008. Vísitalan stendur nú í 14.180 stigum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir gengishækkun á markaði skýrast af aðgerðum japanska seðlabankans sem eiga að örva efnahagslífið þar í landi og koma því á skrið upp úr lágdeyðunni sem hefur einkennt það síðan í kreppunni snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Hlut að máli eiga einnig stýrivaxtalækkun evrópska seðlabankans í síðustu viku og vaxtalækkun í Ástralíu í nótt.

Vísitalan er þrátt fyrir þetta langt frá hæsta gildi sínu en í desember árið 1989 fór Nikkei-vísitalan hæst í rúm 38,900 stig.