Hlutabréfavísitölur í Asíu hækkuðu nokkuð í nótt. Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan hækkaði mikið eða um 2,23%. Mest hækkaði gengi hlutabréfa í stórfyrirtækjum í alþjóðlegum rekstri og skýrist það að hluta af veikingu gengis japanska jensins sem hefur haft jákvæð áhrif á afkomu þeirra. Þá má skýra þróunina í nótt af því að vísitölur í Asíu hafi lækkað síðustu þrjá viðskiptadaga. Fjárfestar hafi nýtt sér tækifærið og lækkun því gengið til baka að hluta.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir þróunin á asískum mörkuðum, sérstaklega þeim í Japan, hafa fylgt þróun mála í Bandaríkjunum en þar í landi hækkaði Dow Jones-hlutabréfavísitalan um 0,14% í gær. Vísitalan endaði í 15.783.10 stigum og hefur aldrei verið hærri.