Rafbílaframleiðandinn Nikola tilkynnti í gær samkomulag um að framleiða 2.500 rafruslabíla fyrir sorprisann Republic Services, sem hefur möguleika á að bæta við 2.500 bílum. Stefnt er að því að afhenda bílana árið 2023. Hlutabréf Nikola hækkuðu um 22% í kjölfar tilkynningarinnar. WSJ greinir frá.

Nikola gerðist almenningshlutafélag í júní síðastliðnum með öfugum samruna. Markaðsvirði félagsins, sem hefur nánast engar tekjur ennþá, fór upp fyrir 30 milljarða dollara í byrjun júní en hefur lækkað töluvert síðan.

Stjórnendur Nikola hyggjast tilkynna síðar á árinu hvaða bílaframleiðanda það muni fara í samstarf með fyrir framleiðslu á Badger jeppunum. Einnig stendur til að velja samstarfsaðila fyrir uppbyggingu vetnisáfyllingarstöðva.

Fyrirtækið tapaði 87 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi . Tekjur þess námu 36 þúsund dollurum á tímabilinu, sem það fékk fyrir uppsetningu á sólarsellum fyrir Trevor Milton, stjórnarformann og stofnanda fyrirtækisins.