Borgarráð hefur samþykkt ráðningu Nikuláss Úlfars Mássonar í embætti byggingarfulltrúa í Reykjavík. 18 umsóknir bárust, en fjórir drógu þær til baka. Nikulás var talinn standa öðrum umsækjendum framar þegar á heildina var litið.

Nikulás Úlfar er menntaður arkitekt, en hann tók lokapróf í arkitektúr frá Portsmouth School of Architecture í Englandi árið 1985. Hann hefur í mörg ár starfað sem forstöðumaður stofnana í stjórnsýslunni og á sveitastjórnarstigi eða frá 1991 bæði sem sérfræðingur og í stjórnunarstarfi.

Nikulás var deildarstjóri húsadeildar Árbæjarsafns árin 1991-2001. Helming þess tíma var hann staðgengill borgarminjavarðar. Þá tók hann við starfi verkefnis- og teymisstjóra hjá Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkur, sem hann sinnti í sex ár, eða þar til hann var skipaður forstöðumaður Húsafriðunarnefndar. Undanfarin ár hefur Nikulás verið skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.