Simon Kissling Hanson, lögfræðingur hjá NKT Holding Group í Danmörku sem er móðurfélag danska ryksuguframleiðandans Nilfisk Advance, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ryksuguframleiðandinn alþjóðlegi hefði lítinn áhuga á að gera stórmál úr meintri misnotkun hljómsveitarinnar NilFisk frá Stokkseyri á vörumerkinu sínu.

Hann sagði það ekki samræmast stefnu né orðspori fyrirtækisins að vera í hlutverki yfirgangseggs sem fær sínu fram með offorsi og látum. Hanson segir að hinsvegar hafi það verið eðlilegt ferli að kynna sér notkun hljómsveitarinnar á nafninu og spyrjast fyrir um hljómsveitina og varning henni tengdri þar sem Nilfisk Advance A/S hefur notað nafnið síðan 1906 og hefur í gegnum tíðina lagt mikla fjármuni og bjargir í að vernda og byggja upp nafnið sem er skrásett, verndað vörumerki.

Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að NilFisk hljómsveitinni hefði borist bréf frá ryksuguframleiðandanum Nilfisk Advance A/S þar sem komu fram athugasemdir við notkun hljómsveitarinnar á Nilfisk nafninu og þess krafist að allur varningur merktur Nilfisk, svo sem bolir, geisladiskar og annað slíkt yrði gerður upptækur. Einnig var þess krafist að vefléninu www.nilfisk.valnir.com, sem sveitin notar, yrði lokað ef hljómsveitin vildi forðast lagalegar aðgerðir að hálfu Nilfisk ryksuguframleiðandans. NilFisk hefur svarað bréfinu og bíður nú átekta, vongóð um að mega halda nafninu.

Simon Hanson segist bjartsýnn á að ryksuguframleiðandinn og hljómsveitin NilFisk geti komist að ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila án þess að þurfa að taka málið skrefi lengra með lögsókn eða málaferlum. Hanson sagði að stjórn Nilfisk Advance A/S muni hittast að nokkrum vikum liðnum eftir sumarfrí og taka endanlega ákvörðun um málið í samráði við lögfræðinga fyrirtækisins og í kjölfarið verði haft samband við hljómsveitina. Hanson sagði að endanleg ákvörðun lægi hjá stjórninni en sagðist þó búast fastlega við því að eingöngu verði farið fram á að minniháttar breytingar á stafsetningu á nafninu og sagðist bjartsýnn á að það væri niðurstaða sem allir gætu unað við. Hanson sagði að fyritækið gerði sér fyllilega grein fyrir því að NilFisk hljómsveitin væri vinsæl á Íslandi og að það myndi ekki gera orðspori Nilfisk ryksugaframleiðandans gott ef stórfyrirtækið myndi þvinga hjómsveitina til að taka upp annað nafn.

Hansson sagði að þetta væri í fyrst sinn sem mál af þessu tagi kæmi upp hjá NKT Holding Group og dótturfélögum. Það gerist reglulega að samkeppnisaðilar sem er að koma á markaðinn með svipaðar vörur notuðu nöfn sem væru svipuð eða keimlík vörumerkjum NKT Holding Group en þetta sé í fyrsta sinn sem hljómsveit hafi tekið upp á þessu. Málið væri því sannarlega sérstakt og tekið verður á því sem slíku, segir Hanson.

Víðir Björnsson, gítarleikari hljómsveitarinnar NilFisk, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hljómsveitin biði enn átekta og svars frá Nilfisk Advance en að hljómsveitin hyggist reyna hvað hún getur að halda í NilFisk nafnið. Margt er á döfinni hjá hljómsveitinni sem auk þess að berjast fyrir nafni sínu heldur nú á vit ævintýranna í Danmörku þar sem drengirnir hyggjast nema hljóðtækni, taka upp plötu og hasla sér völl á erlendri grundu undir nafninu NilFisk.