Nintendo færði hagnaðarvæntingar sínar niður um þriðjung fyrir árið í kjölfar þess að styrking jensins hefur vegið á móti miklum vinsældum Pokémon Go leiksins.

Afkomuviðvörunin kemur á sama tíma og japanska leikjafyrirtækið reynir að blása nýju lífi í rekstur sinn með útgáfu Switch leikjavélarinnar og útgáfu hins vinsæla tölvuleiks Mario fyrir snjallsíma.

Hagnaðarvæntingar um 27 milljarðar króna

Fyrirtækið, sem staðsett er í Kyoto, dró úr hagnaðarvæntingum sínum fyrir fjárhagsárið sem nær til mars árið 2017 úr 45 milljörðum evra niður í 30 milljarða, en það jafngildir um 27,4 milljörðum íslenskra króna.

Á sama tíma færði fyrirtækið niður væntar tekjur úr 500 milljörðum jena niður í 470 milljarða.

Græddi á vinsældum Pokémon Go

Nintendo hefur grætt á árinu á miklum vinsældum Pokémon Go leiksins en greinendur telja þó að fyrirtækið muni einungis fá hóflegan hlut í hagnaði af leiknum. Fyrirtækið á 33% hlut í Pokémon Company og um 5-10% hlut í Niantic, sem hannaði leikinn.

Nintendo endurskoðaði væntingar sínar um gengi jensins gagnvart Bandaríkjadal úr 115 jenum fyrir dalinn niður í 110 jen fyrir dalinn og sagði að gengistapið sem næmi 39,9 milljörðum evra eyddi út 12 milljarða hagnaði fyrirtækisins af Pokémon Company á fyrri hluta ársins.

Miklar vonir bundnar við Super Mario Run og nýja leikjavél

Þrátt fyrir það eru miklar vonir bundnar við útgáfu leiksins Super Mario Run sem kemur út fyrir iPhone í desember. Forstjóri fyrirtækisins Tatsumi Kimishima, segir að nýjar væntingar fyrirtækisins geri ráð fyrir sölu 2 milljón eintaka af leikjavélinni Switch á fyrstu mánuðum útgáfu hennar í mars.

Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hafa lækkað um 9% síðan á fimmtudag þegar myndband sem kynnir leikjavélina til sögunnar var birt.