Forstjóri bílaframleiðandans Nissan segir að fyrirtækið myndi endurskoða viðskiptaáætlanir sínar og fjárfestingar í Bretlandi ef Bretar myndu ganga úr Evrópusambandinu.

Þetta sagði Carlos Ghosn, forstjóri Nissan, í samtali við BBC eftir að nýr Qashqai var kynntur. Til stendur að framleiða bílinn í Sunderland, en 6500 manns starfa í verksmiðjunni þar. Qashqai er mest seldi Nissan bíllinn í Evrópu og helmingur framleiðslunnar í Sunderland er Qashqai bílar.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur lofað því að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu fari fram árið 2017 ef Íhaldsflokkurinn vinnur þingkosningar árið 2015.

Ítarlegri umfjöllun um málið er á vefnum Manufacturer.com.