Japanski bifreiðaframleiðandinn Nissan mun nú kaupa 34% hlut í öðru japönsku bifreiðafyrirtæki - Mitsubishi Motors. Kaupin munu veita Nissan meirihlutaeign í fyrirtækinu, en virði bréfanna sem félagið kaupir er rúmlega 2,2 milljarðar Bandaríkjadala. Það eru ríflega 266 milljarðar íslenskra króna. Wall Street Journal segir frá þessu.

Kaupin eru gerð í kjölfar þess að Mitsubishi játar á sig að hafa falsað eða átt við niðurstöður eldsneytisprófana sem framkvæmdar voru á ótal bíltegundum frá fyrirtækinu. Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hafa hríðfallið í kjölfar uppljóstrunarinnar, en það er á grundvelli verðfallsins sem Nissan gerir kaupin.

Carlos Ghosn, framkvæmdastjóri Nissan, hefur að sögn átt í samræðum við framkvæmdastjóra Mitsubishi, og hann telur að fyrirtækið muni lifa ölduganginn af og halda áfram að framleiða bíla og hagnað. Eftir kaupin mun Mitsubishi halda áfram að vera sjálfstætt starfandi merki - en aðeins eignarhald félagsins mun breytast.