Japanski bílaframleiðandinn Nissan, sem er þriðji stærsti bílaframleiðandi Japan, hefur tilkynnt að félagið hafi í hyggju að segja upp allt að 20 þúsund manns.

Þetta kemur fram í afkomuviðvörun félagsins í dag en félagið sér fram á 265 milljarða jena taprekstur fyrir síðasta ár, sem yrði þá fyrsta tap félagsins í rúman áratug.

Rétt er að geta þess að fyrir þremur mánuðum gaf félagi út afkomuspá þar sem spáð var 270 milljarða jena hagnaði.

Carlon Ghosn, forstjóri Nissan segir í tilkynningu félagsins að Nissan fari ekki varhluta af því efnahagsástandi sem nú ríkir í heiminum.

„Allur bílaiðnaður er í járnum um þessar mundir, Nissan er þar engin undantekning,“ segir Ghosn í tilkynningunni.

Hjá félaginu starfa nú um 235 þúsund manns á heimsvísu.