Japanski bílaframleiðandinn Nissan, tapaði um 6,2 milljarða dollara eða um 850 milljarða íslenskra króna á síðasta rekstrarári en það er mesta tap í 87 ára sögu fyrirtækisins. WSJ greinir frá.

Fyrirtækið hyggst bregðast við núverandi aðstæðum með því að loka verksmiðjum á Spáni og í Indónesíu og minnka framleiðslu í Bandaríkjunum. Nissan vonast til að lækka árlegan rekstrarkostnað um þrjár milljónir dollara.

Japanski bílaframleiðandinn hefur undanfarið ár reynt að draga úr fyrri aðgerðum sem stefndu á aukana sölu viðs vegar um heiminn. Nissan hafði byggt nokkrar verksmiðjur sem gátu samanlagt framleitt um sjö milljónir bíla á ári en fyrirtækið átti í erfiðleikum með að selja meira en fimm milljónir bíla. Stór hluti tapsins kemur til vegna niðurfærslu á virði eigna vegna niðurskurðarins.

„Það hefur reynst okkur erfitt að stjórna rekstrinum og skila af okkur hagnaði í þessum aðstæðum,“ sagði Makoto Uchida, forstjóri Nissan. „Við verðum að viðurkenna mistök okkar og koma rekstrinum á rétta braut.“

Alþjóðleg sala Nissan féll um 42% í apríl miðað við sama tíma í fyrra. Fyrirtækið vonast til þess að sjóðsstreymi þess verði orðið jákvætt í lok næsta árs.

Markaðir í Japan hafa brugðist vel við niðurskurðaráætlunum Nissan en hlutabréfaverð þess hefur hækkað um meira en 20% í vikunni.