Þeir Arnar Gauti Arnarsson og Bjarki Geir Logason hafa þrátt fyrir ungan aldur sett á laggirnar auglýsingastofu. Fyrirtækið, sem nefnist Reykjavík marketing, sérhæfir sig í að aðstoða fyrirtæki við að markaðssetja sig á algengustu samfélagsmiðlunum og hjálpa þeim að ná í nýja viðskiptavini.

„Hugmyndin að því að stofna fyrirtæki af þessum toga kviknaði þegar við Bjarki vorum á golfæfingu,“ segir Arnar Gauti en hann er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

„Bjarki segir við mig að hann hafi verið að taka námskeið á netinu í stafrænni markaðssetningu sem kennt væri af færustu sérfræðingum í heimi í þessum fræðum. Í kjörfarið hoppaði ég á bátinn og við lærðum allt efnið á fjórum mánuðum,“ bætir hann við.

Fyrirtækið var stofnað í apríl á síðasta ári og síðan þá hefur það gert samninga við hin ýmsu fyrirtæki, meðal annars veitingastaði, fataverslanir og fleira. „Við höfum fengið afar góð viðbrögð frá öllum þeim sem við höfum unnið með. Það eru allir mjög ánægðir með þjónustuna okkar,“ segir hann.

Byggja þjónustuna á greiningarvinnu

Að sögn Arnars felst þjónusta Reykjavík marketing í því að samfélagsmiðlamál fyrirtækjanna séu tekin í gegn frá A til Ö. Þeir aðstoða fyrirtækin við markaðssetningu á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram, Snapchat, Twitter og fleiri miðlum.  Hann segir að aðferðarfræði fyrirtækisins byggist að miklu leyti á greingarvinnu.

„Við vinnum markvisst með viðskiptavinum okkar að þróa sérsniðinn markhóp sem hentar þeirra starfsemi og við leggjum mikla áherslu á að gæði þjónustu okkar séu mælanleg. Þess vegna sendum við fyrirtækjunum sem við vinnum með mánaðarlegar árangursúttektir þar sem við tökum út starfsemina fyrir og eftir að við tökum markaðsmálin í gegn. Í öllum  tilvikum hafa tölurnar sem koma út úr þessum úttektum verið jákvæðar,“ segir Arnar.

„Við vinnum auk þess mikið með áhrifavöldum og finnum viðeigandi áhrifavald til að ná til þess markaðshóps sem fyrirtækið vill ná til,“ bætir hann við.

Mikilvægi samfélagsmiðla alltaf að aukast

Arnar segir að það sé engum blöðum um það að fletta að mikilvægi samfélagsmiðla í markaðssetningu sé sífellt að aukast.

„Þegar við vorum nýbyrjaðir þá var í rauninni aðeins eitt fyrirtæki sem var mest áberandi í þessum geira og að okkar mati var mikil vöntun á þessari þjónustu. En síðan þá hafa fjölmörg fyrirtæki sprottið upp. Það eru margir sem hafa haft samband við okkur og vilja vita hvernig við fórum að því að stofna fyrirtækið okkar til að byggja upp sambærilega starfsemi.“

Hann bætir við að stofnun fyrirtækisins hafi verið afar skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. „Við sjáum ekki þörf á því að bæta við okkur formlegri menntun í þessum fræðum og viljum frekar bara einblína á fyrirtækið okkar. Við erum mjög spenntir fyrir komandi tímum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sérhæfir sig í tæknilausnum við lífstílssjúkdómum
  • Tap íslensks ferðaþjónustufyrirtækis eykst mikið
  • Tekist á um forkaupsrétt fyrir dómstólum
  • Fjallað er um samrunamál Haga og Olís, N1 og Festi
  • Ítarleg yfirferð yfir verðhrun hlutabréfa Icelandair Group
  • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, er í ítarlegu viðtali
  • Rætt er við fyrrum starfsmann Amazon sem tekur við nýrri deild hjá Icelandair
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um dómgreindarskort formanns dómarafélagsins
  • Óðinn furðar sig á samkeppniseftirlitinu