Gaute Hellenes, 19 ára unglingur frá Bergen, bar sigur úr býtum í Noregsmeistaramótinu í hlutabréfaviðskiptum sem staðið hefur yfir síðastliðnar sex vikur. Það var norski viðskiptafjölmiðillinn e24.no sem stóð á bak við keppnina. Sigurvegarinn hlaut 50 þúsund norskar krónur í verðlaun, jafnvirði rétt rúmlega eina milljón íslenskra króna. Hann tók við verðlaununum í dag.

Hellenes er ekki óvanur því að landa fyrsta sætinu en fyrir aðeins tveimur mánuðum landaði hann Noregsmeistaratitli í borðtennis í sínum aldursflokki. E24 hefur eftir þessum nýkrýnda hlutabréfakóngi að hann stefni ekki á nám í markaðsviðskiptum heldur í lögfræði.

Fram kemur í frétt e24.no, að Hellenes hafði í meistaramótinu lagt traust sitt á hlutabréf rótgróinna norskra fyrirtækja sem skráð eru á markað fremur en að reyna að kýla ávöxtunina upp með kaupum á áhættusamari hlutabréfum. Þessi háttur skilaði honum 21,2% gengishækkun á sex vikum. Sá sem var í öðru sæti náði 20,5% ávöxtun og sá fjórði 20,34% ávöxtun.

Apinn tekur ósigrinum vel

Apinn tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Apinn tengist ekki efni fréttarinnar beint.

Viðskiptablaðið hefur nokkrum sinnum greint frá þátttöku apans Matu (innskot: Þetta er reyndar ekki hann á myndinni) í dýragarðinum í Kristiansand í hlutabréfaleiknum. Hann stóð sig ágætlega í upphafi og þótti hann um tíma sigurstranglegur. Hins vegar tók fljótlega að síga á ógæfuhliðina hjá apanum og var hann 14,3% í mínus þegar yfir lauk og endaði hann í sæti númer 7.985. Því ber þó að halda til haga að Matu notaðist við trékubba í hlutabréfaviðskiptunum.

E24.no hefur eftir dýragarðshaldaranum í Kristiansand, að Matu hafi vissulega verið óheppinn í viðskiptunum. Hann taki niðurstöðunni hins vegar vel - kannski eins og maður, ef svo má að orði komast.