Tæplega níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands í fyrra, sem er svipað og árin á undan. Tæplega tveir þriðju aðspurðra ferðuðust til útlanda á árinu 2011, eða 63,3%, en var 56,3% í sambærilegri könnun fyrir ári síðan. Ekki er að greina miklar breytingar í ferðaáformum fólks fyrir nýbyrjað ár en langflestir hafa ferðalög af einhverju tagi á stefnuskránni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu þar sem greint er frá helstu niðurstöðum könnunar um ferðalög Íslendinga.

Júlí var langvinsælasti mánuðurinn til ferðalaga innanlands. Um 72% landsmanna nýttu þann mánuð til ferðalaga. Meðaldvalarlengd á ferðalögum innanlands var 14 nætur, sem er styttra en árið 2010. Þá var hún að jafnaði 14,9 nætur.

Sund og jarðböð er sú afþreying sem flestir landsmenn greiddu fyrir á ferðalögum árið 2011, eða tveir af hverjum þremur.