Haft er eftir ónefndum heimildarmanni í Guardian í dag að níu mögulegir kaupendur hafi sýnt knattspyrnufélaginu West Ham áhuga. Vonast sé til þess að viðræður um mögulega sölu gangi hraðar fyrir sig nú þegar jólahátíðin er að baki.

Guardian fjallar í dag um greiðslustöðvun Hansa ehf., félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, en eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu gildir greiðslustöðvunin til 6. mars.

Björgólfur keypti félagið fyrir 85 milljónir punda árið 2006 en í Guardian segir að hann hafi vonast til þess að fá allt að 250 milljónir punda fyrir félagið. Það gæti þó reynst óraunhæft á tímum sem þessum.

Blaðið hefur eftir heimildarmanni sínum að Björgólfur muni þó ekki selja nema fá viðunandi verð fyrir.