Alls verða níu frambjóðendur í stjórnarkjöri Icelandair sem fer fram á aðalfundi félagsins, en þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Aðalfundurinn fer fram klukkan 16 föstudaginn 12. mars en honum verður streymt frá Hilton Reykjavík Nordica.

Núverandi stjórnarmenn Icelandair gáfu allir kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en stjórnina skipa Úlfar Steindórsson, Svafa Grönfeldt, Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas og Nina Jonsson.

Auk þeirra hafði Viðskiptablaðið fjallað um framboð Þórunnar Reynisdóttur , forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands og Steins Loga Björnssonar , fyrrum forstjóra Bláfugls. Þá tilkynnti Sturla Ómarsson , stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs FÍA og flugstjóri hjá Icelandair, að hann hygðist einnig bjóða sig fram til stjórnar.

Sjá einnig: Hiti hlaupinn í stjórnarkjör Icelandair

Níundi aðilinn sem býður sig fram heitir Martin J. St. George. Hann hóf störf sem framkvæmdastjóri (Chief Commercial Officer, CCO) hjá LatAm flugfélaginu í Suður Ameríku á síðasta ári. Áður var hann framkvæmdastjóri (CCO) hjá jetBlue frá árinu 2006 til 2019. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá United Airlines á árunum 1999 til 2006.

Frambjóðendur til stjórnar Icelandair Group eru því eftirfarandi:

  • Úlfar Steindórsson
  • Guðmundur Hafsteinsson
  • Nina Jonsson
  • John F. Thomas
  • Svafa Grönfeld
  • Steinn Logi Björnsson
  • Þórunn Reynisdóttir
  • Sturla Ómarsson
  • Martin J. St. George

Hluthafar sem hyggjast taka þátt í aðalfundinum þurfa að skrá sig með fimm daga fyrirvara fyrir fundinn eða eigi síðar en kl. 16 sunnudaginn 7. mars næstkomandi. Skráning á fundinn fer fram á www.icelandairgroup.is/agm .