*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 5. mars 2021 18:02

Níu bjóða sig fram í stjórn Icelandair

Martin J. St. George, framkvæmdastjóri hjá LatAm flugfélaginu, er níundi aðilinn sem býður sig fram til stjórnar Icelandair.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Alls verða níu frambjóðendur í stjórnarkjöri Icelandair sem fer fram á aðalfundi félagsins, en þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Aðalfundurinn fer fram klukkan 16 föstudaginn 12. mars en honum verður streymt frá Hilton Reykjavík Nordica. 

Núverandi stjórnarmenn Icelandair gáfu allir kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en stjórnina skipa Úlfar Steindórsson, Svafa Grönfeldt, Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas og Nina Jonsson.

Auk þeirra hafði Viðskiptablaðið fjallað um framboð Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands og Steins Loga Björnssonar, fyrrum forstjóra Bláfugls. Þá tilkynnti Sturla Ómarsson, stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs FÍA og flugstjóri hjá Icelandair, að hann hygðist einnig bjóða sig fram til stjórnar. 

Sjá einnig: Hiti hlaupinn í stjórnarkjör Icelandair

Níundi aðilinn sem býður sig fram heitir Martin J. St. George. Hann hóf störf sem framkvæmdastjóri (Chief Commercial Officer, CCO) hjá LatAm flugfélaginu í Suður Ameríku á síðasta ári. Áður var hann framkvæmdastjóri (CCO) hjá jetBlue frá árinu 2006 til 2019. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá United Airlines á árunum 1999 til 2006.

Frambjóðendur til stjórnar Icelandair Group eru því eftirfarandi:

  • Úlfar Steindórsson
  • Guðmundur Hafsteinsson
  • Nina Jonsson
  • John F. Thomas
  • Svafa Grönfeld
  • Steinn Logi Björnsson
  • Þórunn Reynisdóttir
  • Sturla Ómarsson
  • Martin J. St. George

Hluthafar sem hyggjast taka þátt í aðalfundinum þurfa að skrá sig með fimm daga fyrirvara fyrir fundinn eða eigi síðar en kl. 16 sunnudaginn 7. mars næstkomandi. Skráning á fundinn fer fram á www.icelandairgroup.is/agm

Stikkorð: Icelandair