Níu óskuldbindandi tilboð frá dreifðum hópi fjárfesta bárust í HTO, félagið sem á Höfðatorg, í fyrstu umferð söluferlisins. Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka sem fór með eignarhald á félaginu, að ákveðið var að hleypa sex áfram í aðra umferð söluferlisins þar sem tilboðsgjafar fengu aðgang að frekari upplýsingum um félagið, kynningu með stjórnendum þess.

Í seinni umferð bárust fimm tilboð í eignarhlut Íslandsbanka.

Bankinn segir í tilkynningu að fenginn var óháður eftirlitsaðili til þess að bera tilboðin saman og var niðurstaðan sú að tilboð Fast-1 slhf. væri hagstæðast. FAST 1 er samlagshlutafélag í eigu lífeyrissjóða og tryggingafélaga í rekstri VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, og Contra.

Ekkert er gefið upp um kaupverð. VB.is sagði frá því þegar Íslandsbanki auglýsti HTO til sölu í sumar að Höfðatorg hafi um síðustu áramót verið bókfært á 13,7 milljarða króna.

Bankinn hefur því samþykkt  tilboð sjóðsins og stefnt er að frágangi kaupsamnings vegna viðskiptanna eins fljótt og auðið er, en viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.