Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt níu menn fyrir brot gegn höfundalögum með því að hafa gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem þeir vistuðu á nettengdum tölvum sínum og birtu meðlimum Direct Connect jafningjanets, sem í voru kringum 100 einstaklingar.

„Við fögnum þessum dómi innilega og hann er í samræmi við það sem við sóttumst eftir,” segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.

Með bréfi í byrjun febrúar 2004 lögðu Samtök myndefnisútgefenda á Íslandi, Framleiðendafélagið-SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Samband hljómplötuframleiðenda fram kæru á hendur ákærðu vegna stórfelldra brota á höfundalögum. Lögregla gerði húsleit í septemberlok.

Við ákvörðun refsingar ákærðu er litið til þess að brotastarfsemi þeirra stóð yfir í talsvert langan tíma og var umfangsmikil.

Ákærðu eru hins vegar ungir að árum og eiga þrír þeirra lítinn en aðrir engan sakaferil að baki. Rannsókn lögreglu var viðamikil en lögregla þurfti að flokka og rannsaka gríðarlegt magn gagna, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Virðist þó sem hlé hafi orðið á rannsókn málsins sem dró hana á langinn.

Með hliðsjón af öllu þessu þykir rétt að fresta skilorðsbundið ákvörðun refsingar annarra ákærðu en þess sem sakfelldur var sem aðalmaður í broti og fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu. Er litið til þess við ákvörðun refsingar. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð.

14 terabyte af gögnum

„Dómurinn viðurkennir sekt þessara manna viðurkennd og höfuðpaurinn er dæmdur fyrir hlutdeildarbrot, þannig að hann er meðsekur öllum hinum fyrir að hafa gert þeim kleift að fremja sín brot,” szegir Snæbjörn. „Þetta er fyrsta alvöru mál sinnar tegundar hérlendis og niðurstaðan er okkur rétthöfum algjörlega í hag. Við hefðum ef til vill viljað sjá þyngri refsingar, en það eru skýringar á þeirri niðurstöðu, sem svo dráttur á rannsókninni. Við erum að tala um 14 terabyte af gögnum, og lögreglan þurfti að fara í gegnum þetta gríðarlegt magn efnis til að átta sig á hvað um væri að ræða,” segir hann.

Hann kveðst vona að hægt verði í framhaldinu að gera samkomulag við fjarskiptafyrirtæki um að þau búi rétthöfum eðlilegt viðskiptaumhverfi, þ.e. að fjarskiptafyrirtækin hafi eftirlit með og komi í veg fyrir ólögegt niðurhal og miðlun gagna.