Níu erlend fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að starfa sem lögfræðiráðgjafar fyrir íslenska ríkið vegna fyrirhugaðrar sölu á Íslandsbanka. Þetta kemur fram á heimasíðu Ríkiskaupa .

Um er að ræða eftirfarandi fyrirtæki:

  • Allen & Overy LLP
  • Ashurst LLP
  • Bake McKenzie LLP
  • Cleary Gottlieb Steen & Hamilton
  • Davis Polk & Wardwell London LLP
  • Freshfields Bruckhaus Deringer LLP
  • Milbank LLP
  • Proskauer
  • White & Case LLP

Bankasýsla Ríkisins og Íslandsbanki hyggjast ráða sameiginlega lögfræðiráðgjafa fyrir söluferlið á bankanum. Annars vegar lögfræðiráðgjafa með sérþekkingu á íslenskum lögum, m.a. varðandi almennt útboð og skráningu hluta á skipulegum verðbréfamarkaði. Hins vegar lögfræðiráðgjafa með sérþekkingu á erlendum/alþjóðlegum lögum, m.a. er varða almennt útboð og skráningu hluta á skipulegan verðbréfamarkað þar á meðal varðandi bandarísk lög.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að sex innlend fyrirtæki hafa sótt eftir því að veita lögfræðiráðgjöf við sölu Íslandsbanka . Það voru fimm lögmannsstofur; BBA Fjeldco, DRÁGGS ehf. (Advel lögmenn), Lex, Logos og Nordik lögfræðiþjónusta, auk endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækisins Deloitte.

Þá tilkynnti Bankasýsla ríkisins á föstudaginn síðasta að ráðgjafafyrirtækið STJ Advisors Group Limited hefði verið ráðið sem sjálfstæður fjármálaráðgjafa vegna frumútboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.