Á árinu 2014 bárust Vinnumálastofnun níu tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 202 starfsmönnum var sagt upp. Þetta kemur fram í nýrri samantekt stofnunarinnar .

Þar kemur einnig fram að ein tilkynning um hópuppsögn hafi borist í desember þar sem sagt var upp 21 starfsmanni í fiskvinnslu.

Flestir þeirra sem misstu vinnuna í hópuppsögnum á árinu störfuðu við fiskvinnslu eða 52 talsins. Þá var 50 sagt upp í fjármála- og tryggingaþjónustu.

Samtals hefur 9.157 starfsmönnum verið sagt upp í hópuppsögnum á síðustu sjö árum, en flestir þeirra misstu vinnuna á þriggja mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu þrjá mánuði þar á eftir.