Nokkrir voru handteknir við rannsókn Embættis sérstaks saksóknara á tíu málum tengdum Glitni og FL Group fyrr í dag. Á meðal málanna sem heyra undir rannsóknina er Stím-málið svokallaða.

Yfirheyrslur hófust yfir sakborningum og vitnum í rannsókninni í morgun og er búist við að yfirheyrslur haldi áfram næstu daga. Alls tóku um 60 starfsmenn embættisins þátt í aðgerðunum í dag.

Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
© BIG (VB MYND/BIG)

Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að rannsóknin snúi að lánveitingum Glitnis og viðskiptum með hlutabréf.

Málin sem eru til rannsóknar eru kaup eigin viðskipa Glitnis á hlutabréfum útgefnum af bankanum á verðbréfamarkaðinum, kaup bankans og ráðstöfun á hlutabréfum útgefnum af FL Group.

Þá eru til rannsóknar lánveitingar til ýmissa félaga vegna kaupa á hlutabréfum útgefnum af bankanum í lok árs 2007 og á árinu 2008. Upphaflegur höfuðstóll nefndra lánveitinga er talinn nema samtals tæpum 37 milljörðum króna. Önnur mál eru viðskipti með framvirka samninga í hlutabréfum útgefnum af bankanum og sölutrygging Glitnis á 15 milljarða hlutafjárútboði FL Group áramótin 2007 og 2008.

Um er að ræða alls níu mál sem rannsókn hófst á í dag en samhliða var unnið áfram við rannsókn á svokölluðu Stím-máli, en sú rannsókn hófst á síðasta ári. Mál til rannsóknar sem tengjast aðgerðunum í dag eru því alls tíu talsins.

Í tilkynningu Embættis sérstaks saksóknara segir að til rannsóknar sé grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans, brot á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um ársreikninga og lögum um bókhald. Um er að ræða rannsóknir á fjölmörgum tilvikum og um háar fjárhæðir er að tefla. Ljóst er að yfirheyra þarf allstóran hóp manna í tengslum við rannsóknirnar.

Málunum var vísað til embættis sérstaks saksóknara annarsvegar með kærum frá Fjármálaeftirlitinu og hinsvegar með tilkynningum frá slitastjórn Glitnis á þessu ári, að því er segir í tilkynningunni.

Glitnir uppgjör 07.05.08
Glitnir uppgjör 07.05.08
© BIG (VB MYND/BIG)
Lárus Welding var bankastjóri Glitnis þegar hann var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.