Arctic Fish Holding, móðurfélag Arctic Fish ehf. á Íslandi, hyggst skrá sig á markað í Osló en útboðið hófst í dag. Með skráningunni verða boðnir til sölu nýir hlutir auk þess að eldri hlutir verða seldir. Fyrirhugað útboð verður allt að 600 milljónir norskra króna, andvirði rúmlega níu milljarða íslenskra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arctic Fish. Þar segir að rúmlega 5,7 milljónir nýrra hluta verði boðnir út í fyrra útboðinu en í því síðara verða rúmlega 3,2 milljónir eldri hluta seldir. Seljandi er Bremesco Holdin Ltd. Umsjónaraðilar verða DNB Markets og Pareto Securities auk þess að Arion banki starfar með þeim að því að auka hlut íslenskra fjárfesta í félaginu.

Tveir núverandi hluthafa, Norway Royal Salmon og Novo ehf., hafa skuldbundið sig til að gerast áskrifendur að hlutum. NRS skuldbindur sig fyrir 200 milljónir norskra og verður með því meirihlutaeigandi í félaginu. Novo skuldbindur sig fyrir 45 milljónir norskra og fjármálastjóri félagsins, Neil Shiran Þórisson, hefur skráð sig fyrir hlutum að andvirði 41 milljón norskra. Í hópi annarra sem hafa skráð sig fyrir hlutum má nefna Nordea Asset Management, Birtu lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja og Vörð tryggingar.

Útboðið hófst í dag og lýkur á morgun klukkan 16.30 að staðartíma ytra. Umsjónaraðilar og fyrirtækið sjálft geta hins vegar ákveðið að loka útboðinu fyrr. Viðskipti með hluti munu síðan að óbreyttu hefjast þann 19. febrúar næstkomandi á Euronext Growth markaðnum í Osló.