Starfsemi fjárfestingabankasviðs MP banka, markaðsviðskipta og viðskiptabankasviðs hafa verið sameinuð í tvö ný svið banka og markaða. Í tengslum við breytinguna er starfsmönnum fækkað um níu.

Afkomueiningar MP banka verða eftir skipulagsbreytingarnar: banki, markaðir, eignastýring og eignaleiga undir vörumerkinu Lykill. Markmið þessara breytinga er að efla enn frekar þjónustu við kjarna viðskiptavini bankans með áherslu á að veita fyrsta flokks sérhæfða bankaþjónustu.

Breytingarnar voru kynntar starfsmönnum bankans nú síðdegis.

Fram kemur í tilkynningu frá MP banka að Benedikt Gíslason muni leiða nýtt bankasvið þar sem öll innlána- og útlánastarfsemi bankans verður starfrækt ásamt fjárstýringu. Benedikt var áður framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs. Benedikt er með CSc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Þá mun Kristján Einarsson verða forstöðumaður viðskiptabankaþjónustu.  Kristján hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 1997, lengst af hjá Landsbankanum sem útibús- og svæðisstjóri á Austurlandi og síðar svæðisstjóri á austurbæjarsvæði Landsbankans í Reykjavík og útibússtjóri á Laugarvegi 77. Kristján hefur einnig starfað sem forstöðumaður á fyrirtækjasviði og sérfræðingur í fyrirtækjaþróun. Kristján gekk til liðs við MP banka á miðju ári 2011 sem sérfræðingur á lánasviði. Kristján er með MBA og BSc í viðskiptafræði frá Rockford College í Bandaríkjunum.

Bjarni Eyvinds Þrastarson mun leiða sviðið markaði en því tilheyrir starfsemi bankans í verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun, eigin viðskipti og fyrirtækjaráðgjöf. Bjarni var áður framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Bjarni er með BBA frá George Washington University og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Þá mun Barði Már Jónsson verða forstöðumaður verðbréfamiðlunar. Barði starfaði áður í verðbréfamiðlun Landsbankans og hjá Horni fjárfestingarfélagi.  Barði er með MSc í fjármálum frá Stockholm School of Economics og BSc í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Að lokum mun Sigurður M. Sólonsson verða forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar. Sigurður starfaði í átta ár hjá Landsbankanum lengst af á sviði gjaldeyris- og afleiðuviðskipta. Fyrir þann tíma starfaði Sigurður um tíu ára skeið við eigin rekstur. Sigurður er með BS próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.