Á þriðjudaginn síðastliðinn hóf sparisjóðurinn indó að bjóða upp á sparnaðarreikninga en þá voru fjórir mánuðir liðnir eftir formlega opnun debetreikninga.

Í tilkynningu frá sparisjóðnum segir að 9.000 sparireikningar hafi verið stofnaðir á tveimur dögum. Indó leyfir einnig viðskiptavinum að gefa sparisjóð sínum nafn og setja mynd af því sem safnað er fyrir.

“Þetta hefur verið langalgengasta óskin sem við höfum fengið frá viðskiptavinum okkar en við höfum verið að þróa vöruna með þeirra hjálp síðustu vikur og hlökkum til að halda því áfram. Sparnaðarreikningarnir kallast sparibaukar og eru sérstaklega hannaðir til að hjálpa fólki að byrja að spara og gera sparnað að ákveðinni en fyrirhafnarlítilli venju,” segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri indó.

Indó segir að viðskiptavinir sparisjóðsins séu nú yfir 26.000 og að 5% allra kortafærslna á Íslandi séu greiddar með indó kortum. Smáforrit sparisjóðsins hefur einnig verið mest sótta fjármála appið í hverri viku frá opnun.