Norskir sérfræðingar á sviði endurskoðunar, Helge Skogseth Berg og Arne Jørgen Rønningen, telja Landsbankann hafa staðið mun verr en ársreikningur bankans í lok árs 2007 gaf til kynna og að endurskoðendur frá PwC, ytri endskoðanda bankans, hafi vitað af því. Fyrirtækjum sem tengd hafi verið Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, m.a. Icelandic Group og Eimskip, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum. Niðurfæra hefði þurft lán til fyrrnefndra félaga um 50 til 100 milljarða á árinu 2007 að mati sérfræðinganna.

Þetta kemur fram í skýrslu sem norsku sérfræðingarnir, sem eru starfsmenn Lynx Advokatfirma DA, unnu fyrir embætti sérstaks saksóknara um Landsbankann. Henni var skilað til embættisins 2. nóvember sl. og er að miklu leyti byggð á gögnum sem haldlögð voru í húsleit hjá PwC 1. október í fyrra. Á sama tíma var leitað í húsakynnum KPMG. Í Viðskiptablaðinu í morgun kom fram að húsleit hefði farið fram í húsakynnum Deloitte á sama tíma, en það er ekki rétt. Deloitte var ekki endurskoðandi bankanna þriggja fyrir hrun. Húsleit var hins vegar gerð í húsakynnum Deloitte í janúar á þessu ári í tengslum við annað mál sem nú er til rannsóknar.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .