Jónas Sigurgeirsson, upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir að niðurstaða norska fjármálaeftirlitsins um að neita Kaupþingi að auka hlut sinn í Storebrand í 25% breyta litlu fyrir bankann. "Í tengslum við sölutryggingu okkar í nýafstöðnu hlutafjárútboði hjá Storebrand sóttum við um heimild til að fá að eiga allt að 25% hlut í Storebrand - en nú erum við með heimild til að eiga 20%. Norsk yfirvöld samþykktu umsóknina ekki að þessu sinni. Þetta breytir þó ákaflega litlu fyrir okkur eins og sakir standa.”

Storebrand er norskt tryggingafélag og nær saga þess allt aftur til ársins 1767. Í dag er það í hópi stærstu fyrirtækja á norskum markaði. Kaupþing eignaðist fulltrúa í stjórn Storebrand um áramótin er Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, tók sæti í stjórninni.