Norska fjármálaeftirlitið telur það áhættusamt ef Kaupþing fær að eignast meira en 20% hlut í norska tryggingarfyrirtækinu Storebrand, samkvæmt frétt viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv. Talsmaður Kaupþings segir niðurstöðuna ekki vera byggða á staðreyndum.

Kaupþing á 14% hlut í Storebrand og hefur fengið heimild til að auka hlutinn í 20%. Hins vegar varar norska fjármálaeftirlitið við því að bankinn fái að fara yfir 20% þar sem reynsla af rekstri tryggingarfélaga er ekki til staðar og bankinn er talinn vera of áhættusækinn.

"Við erum ekki sammála (norska) fjármálaeftirlitinu. Niðurstaða þess er ekki byggð á staðreyndum," segir Jónas Sigurgeirsson, talsmaður Kaupþings.

Kaupþing hefur verið orðað við yfirtöku á Storebrand en einnig er talið að norska tryggingarfélagið Gjensidige hafi áhuga á að kaupa fyrirtækið. Sérfræðingar segja að niðurstaða fjármálaeftirlitsins gefi til kynna að Gjensidige muni hafa betur í slagnum um að taka yfir Storebrand.

Kaupþing hefur hins vegar ekki gefið upp hvort að áhugi sé fyrir því að yfirtaka Storebrand sé fyrir hendi og bankinn segir fjárfestinguna í tryggingarfélaginu vera áhugaverðan kost.