Stjórnendur FL Group og norræna lággjaldaflugfélagsins Sterling funduðu í gær í Kaupmannahöfn og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er líklegt að samningar náist um samstarf eða samruna félaganna. Talið er að niðurstaða viðræðnanna verði kynnt í dag eða strax eftir helgi en stjórn FL Group hittist í gærkvöldi. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Ekki er vitað hve mikið FL Group er tilbúið greiða fyrir Sterling ef samningar nást en danskir fjölmiðlar hafa sagt að FL Group muni greiða um 15 milljarða fyrir Sterling-samstæðuna. Sterling keypti nýverið danska flugfélagið Mærsk Air og er samstæðan í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem er stjórnað af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni. Fons greiddi fjóra milljarða fyrir Sterling en kaupverð Mærsk hefur ekki verið gefið upp segir í frét Viðskiptablaðsins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er mögulegt að stjórnendur Fons fái greitt fyrir Sterling með hlutabréfum í FL Group. Pálmi Haraldsson hefur sagt að ef það gerist og að þeir ákveði að halda bréfum sínum í FL Group þá neyðist þeir til að selja Iceland Express. Viðsnúningur hefur orðið á rekstri Iceland Express og er áætlað að félagið skili 300 milljón króna hagnaði í ár en talið er að taprekstur félagsins á síðasta ári hafi numið um 300 milljónum.

Einnig er orðrómur um að FL Group hafi átt í viðræðum við nokkra banka, þar á meðal Landsbanka Íslands, um leiða hlutabréfaútboð fyrir félagið. Ekki hefur það þó fengist staðfest né hvað félagið hyggst nýta fjármagnið í ef af verður.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.