GoMobile er hugbúnaður sem safnar inneign fyrir notandann, segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum vegna verkefnisins. . Hún nýtist til að greiða fyrir þjónustu, afþreyingu og búnað hjá Símanum. Þannig gætu til dæmis kaup á góðum jakkafötum hjá Kormáki og Skyldi fyrir rétt rúmar sextíu þúsund greitt fyrir 50 GB nettengingu í mánuð. Gallabuxur í GK fyrir sextán þúsund má líka til dæmis nota í Spotify Premium áskrift þann mánuðinn.

Hátt í níutíu fyrirtæki taka í upphafi þátt og endurgreiða hluta af vöruverði sínu og þjónustu. Stefnt er að því að fjölga þeim í hverjum mánuði. Inneignarkerfið er hugsmíð sprotafyrirtækisins GoMobile. Það hannaði hugbúnað þar sem viðskiptavinirnir sjá svart á hvítu hverju þeir hafa safnað – og með hjálp hverra.

„Hugmyndin gengur út á að láta lífsstíl fólks greiða niður afþreyingu og fjarskipti þess. Eins og við vitum eru samskipti í gegnum allskyns snjalltæki og tölvur orðin hluti af því sem við getum ekki verið án og appið því einstök búbót,“ segir Hálfdán Steinþórsson, framkvæmdastjóri GoMobile.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir hugmyndina hafa heillað Símann þar sem þjónusta fyrirtækisins og vöruframboð breytist ört og fjarskipti ein af grunnþörfum heimila; hvort sem litið er til samskipta eða afþreyingar.