Síminn mun í dag loka NMT símkerfinu. Það hefur í áratugi þjónað öryggishlutverki til sjós og lands. Við tekur GSM, 3G og 3G landrægt kerfi. NMT-sendar Símans verða gefnir til byggðarsafnsins á Skógum.

Í tilkynningu frá Símanum segir að ekki sé lengur unnt að reka NMT kerfið þar sem að það er barn síns tíma. Hætt hefur verið framleiðslu á búnaði kerfisins. Eingöngu Rússland og Pólland nota NMT-kerfi í dag.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans segir að önnur kerfi séu í mörgum tilfellum betri. „ Síminn hefur rekið NMT kerfið í áratugi og satt að segja þykir okkur svolítið vænt um það en nú er svo komið að dekkun annarra kerfa okkar er sambærileg því sem NMT var og í mörgum tilfellum betri enda þarf fólk ekki lengur að kaupa sérstök NMT handtæki heldur notar 3G/GSM símana sína.“