Nóbel námsbúðir, sem starfandi hafa verið hér á landi undanfarin ár, hefur hafið undirbúning að því að stofna Nobel Academy í Los Angeles í Kaliforníu. Þetta segir Davíð Ingi Magnússon, annar framkvæmdastjóra fyrirtækisins, í samtali við Fréttablaðið.

„Við áætlum að fyrstu námskeiðin muni líta dagsins ljós í Los Angeles haustið 2015. Okkar markmið er að aðstoða milljón nemendur fyrir lokapróf á innan við fimm árum um allan heim,“ segir Davíð Ingi.

„Nemendafjöldi okkar er kominn í fjögur þúsund nemendur á ári og erum við því, samkvæmt Hagstofunni, þriðja stærsta menntastofnun á Íslandi, á eftir Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.“