Nóbelsverðlaunahafi í læknisfræði, Susumu Tonegawa, heimsækir Ísland um næstu helgi, dagana 6. og 7. September. Tonegawa heldur hér fyrirlestur í boði tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og Taugavísindafélags Íslands.

Í tilkynningu frá HR segir að dr. Susumu Tonegawa sé fæddur í Japan 6. september 1939. Hann hafi orðið prófessor í líffræði MIT árið 1981 og hafið rannsóknir við Rannsóknarstofnun í krabbameinsfræðum (Center for Cancer Research).

Í tikynningunni segir eftirfarandi um Tonegawa:

„Hann fékk Nóbelsverðlaun í lífeðlisfræði og læknavísindum árið 1987. Honum voru veitt verðlaunin fyrir að leysa afar erfiða gátu í ónæmisfræði.  Ef eitt gen er skráð fyrir hverju mótefni í ónæmiskerfinu (eins og eitt sinn var talið) þyrfti milljónir gena til þess að framleiða öll þau mótefni sem við þurfum. Tonegawa sýndi hins vegar fram á að erfðaefnið getur umraðast til þess að skapa öll þau mótefni sem þarf; því þarf aðeins fá gen til þess að mynda hinn ótölulega fjölda mótefna sem menn og dýr reiða sig á. Eftir að Tonegawa fékk Nóbelsverðlaunin stofnaði hann Center for Learning and Memory við MIT árið 1994. Hann hefur einbeitt sér að rannsóknum sem ganga út á að skilja sameindafræðilegar undirstöður náms og minnis: Hvaða breytingar á taugafrumum eru undirstaða þess að hægt er að öðlast nýja þekkingu, geyma hana og kalla fram? Í þessum rannsóknum hefur Tonagawa verið í fylkingarbrjósti og meðal annars þróað og beitt aðferðum til þess að stjórna genum í þeim hlutum heilans sem eru nauðsynlegir fyrir nám og minni. Stjórn yfir þessum genum hefur gert það að verkum að hægt er að kortleggja með mikilli nákvæmni hlutverk taugafrumna í minni. Fyrir þessar rannsóknir hefur Tonegawa verið orðaður við Nóbelsverðlaunin á nýjan leik, en afar sjaldgæft er að sami maðurinn fá þessi verðlaun tvisvar á lífsleiðinni.“

Dr. Tonegawa heldur fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík, Ofanleiti 2, stofu 101, á afmælisdaginn sinn 6. september, frá klukkan 14:00 til 15:00. Þar mun hann veita yfirlit yfir rannsóknir sínar á minni mannshugans og ber fyrirlesturinn yfirskriftina "Molecular, cellular, and circuit mechanisms for hippocampal learning and memory". Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfist.