Finn Kydland, sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2004, heimsækir Háskólann í Reykjavík dagana 15. - 20. apríl nk. og heldur tvo fyrirlestra.

Kydland heldur opinberan fyrirlestur um hagstjórn og hagvöxt fimmtudaginn 17. apríl.

„Fyrirlesturinn á erindi til allra sem áhuga hafa á efnahagsmálum og sérstaklega þeirra sem áhuga hafa á stjórn peningamála,“ segir í tilkynningu frá HR.

Í fyrirlestrinum, sem ber heitið Efnahagsstefna og hagvöxtur: Um mikilvægi stefnufestu til langs tíma (Economic Policy and the Growth of Nations: on the Importance of Long-Run Policy Consistency), mun Kydland útskýra hvers vegna sumum þjóðum hefur tekist að hafa styrka stjórn á efnahagsmálum sínum og að tryggja góðan hagvöxt en öðrum hefur mistekist þetta.

Í fyrirlestrinum byggir Kydland m.a. á þeim rannsóknum sem hann fékk nóbelsverðlaun fyrir auk nýlegra rannsókna þar sem  hann  lítur til reynslu landa á borð við Argentínu og Írland.

Boðið verður upp á léttar veitingar að fyrirlestrinum loknum. Tekið er við skráningum í [email protected] .

Miðvikudaginn 16. apríl mun Kydland halda málstofu ætlaða þeim sem hafa meiri hagfræðiþekkingu.

Í málstofunni verður fjallað um nýlega grein (Endogenous Money, Inflation and Welfare) sem Kydland skrifaði ásamt Espen Henriksen.  Í henni leggja þeir mat á samfélagslegan ábata af peningamálastefnu sem dregur úr verðbólgu. Efnið er sérlega áhugavert í ljósi mikillar umræðu á Íslandi um kosti og galla peningamálastefnu Seðlabankans.

Nánari upplýsingar um Kydland má finna á heimasíðu hans: http://www.econ.ucsb.edu/cgi-bin/faculty.cgi?f=kydland og á síðu Nóbelsstofnunarinnar http://nobelprize.org/nobel_prizes/economics/laureates/2004/ .