Bandaríkjamennirnir Peter Diamond, prófessor við MIT háskólann, og Dale Mortensen, prófessor við Northwest háskóla, og Kýpverjinn Christopher Pissarides hlutu í dag Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2010. Pissarides kennir við London School of Economics í Bretlandi.

Þremenningarnir skipta á milli sín vinningsfjárhæðinni, 1,5 milljónum dala. Er það jafnvirði um 166 milljóna króna. Því fær hver um sig jafnvirði rúmlega 55 milljóna króna.

Vísindamennirnir þrír fengu verðlaunin fyrir kenningu sína um hvernig kaupendur og seljendur á markaði leita að hver öðrum og hvernig tími og auðlindir geta valdið því að kaupendur og seljendur finna ekki hver annan.

Á þann hátt er kenningin í það minnsta útskýrð af sænsku Nóbelsverðlauna-akademíunni sem gerir tilraun til þess að útskýra kenninguna á mannamáli.

Beitt á vinnumarkaðinn

Sem dæmi reynir kenningin að útskýra afhverju svo margir eru atvinnulausir á sama tíma og mikið er af lausum störfum. Diamond rannsakaði eðli slíkra markaða, sem kallaðir eru „leitar-markaðir“ í kenningunni (e. search markets). Mortensen og Pissarides víkkuðu kenninguna út og beittu henni á vinnumarkaðinn.

Líkanið leitast við að útskýra hvernig lög og efnahagsstefnur hafa áhrif á atvinnuleysi, atvinnutækifæri og laun. Þá er hægt að beita kenningunni á aðra markaði, til dæmis húsnæðismarkaðinn.