Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, segir útlitið fyrir byggingariðnaðinn vera gott, nú þegar 840 milljarða framkvæmdir eru í pípunum, svo fremi sem verkföll setja ekki strik í reikninginn.

„Það er engin ástæða til að vera að barma sér mikið, miðað við það sem búið er að kynna og nefnt var í útboðsþingi Samtaka iðnaðarins um opinberar framkvæmdir. Svo bætti auðvitað samantektin hjá ykkur á Viðskiptablaðinu fyrir þremur vikum um betur, þegar fjárfestingar á einkamarkaði voru teknar inn, þó ég eigi nú ekki von á því að þetta verði allt að veruleika,“ segir Sigurður en áætlaðar verklegar framkvæmda á næstu þremur árum nema tæplega 840 milljörðum króna.

„Einkafjárfestingin, sem hefur haldið uppi okkar geira undanfarin ár, er aðeins að dragast saman, en á sama tíma er opinberi geirinn að koma inn. Þannig á það líka að vera, hann á að sveiflujafna einkageirann. Þetta ætti líka að gefa ríkinu hagkvæmara verð, því ef þeir eru að bjóða út þegar við erum í mikilli framkvæmdauppsveiflu, þá eru verðin hærri. Vissulega eru blikur á lofti á vinnumarkaði en svo fremi sem verkföllin setji ekki hér allt á annan endann, þá eru allar forsendur fyrir því að næstu þrjú árin ættu verktakar að geta verið sæmilega vel settir, með þau verkefni sem nú eru í pípunum.“

Á móti kemur, eins og fjallað var um nýlega í Viðskiptablaðinu, þá eru engar stóriðju- eða virkjanaframkvæmdir á döfinni næstu árin, sem rekja má til stefnubreytingar stjórnvalda í átt til fjölbreyttari, dreifðari og smærri verkefna. Íslenskir aðalverktakar hafa þó helst verið í stærri verkefnum enda stærsti og elsti verktaki landsins.

„Við erum með nokkur stór verkefni í gangi núna, við erum að breikka Suðurlandsveg frá Hveragerði í áttina að Selfoss, síðan erum við að byggja fyrir Bjarg íbúðafélag uppi í Spöng, tæplega 160 íbúðir, og um 200 íbúðir fyrir ofan Smáralindina, í 201 Smára. Þar erum við þegar búnir að afhenda þær fyrstu og í fyrri hluta mars verðum við búin að afhenda um 60 af þeim.“

Sigurður segir að ýmislegt ætti að vera hægt að gera til að lækka framkvæmdakostnað, t.d. mætti taka meira með í reikninginn hvernig best sé að standa að framkvæmdunum við hönnun mannvirkja.

„Hönnuðirnir mættu oft vera praktískari og þekkja betur inn á mannvirkjaiðnaðinn og hvaða lausnir hann hefur upp á að bjóða og aðlaga sig að því. Oft leysa menn það með því að verktakarnir eru teknir snemma inn í ferlið, eins og til dæmis þar sem við erum að byggja fyrir Bjarg og við Kirkjusand og Smára. En oftast er þetta bara boðið út eins og í opinberum framkvæmdum og þá vita hönnuðirnir ekkert hvað verktökunum kemur best,“ segir Sigurður.

„Mikið er talað um að kostnaður fari fram úr áætlunum, en markaðurinn þyrfti að gera átak í því að samræma vinnu við kostnaðaráætlanir, þannig að allir leggi sama skilning í hvað þær fela í sér. Þær eru nefnilega á mismunandi stigum, og mönnum hættir til að taka einhverja bráðabirgðakostnaðaráætlun sem verður til á bakinu á einhverri servíettu, þar sem gróflega er verið að stærðargráðukostnaðarreikna einhverja hugmynd að mannvirki, og fara svo seinna meir að rifja þá tölu upp.

Það þarf að undirstrika betur að um sé að ræða frumkostnaðaráætlun, á frumstigi málsins og síðan geta komið fleiri stig, eftir því sem lengra nær í hönnunarferlinu. Við erum til dæmis oft að lenda í því að vera búnir að eyða mörgum mannmánuðum í kostnaðaráætlanir meðan verkkaupandinn eyðir örfáum manndögum, og síðan segja þeir að verktakarnir séu of dýrir. Þetta getur leitt til rangra ákvarðana kaupenda og að hætt verði við verkefni eða þeim frestað á röngum forsendum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .