Vel yfir 200 manns sóttu viðburðinn Kvennameetup í Bíó Paradís á vegum Plain Vanilla síðastliðið fimmtudagskvöld. Tilgangurinn var að opna umræðu um fjölbreytni á vinnustöðum og tækifæri kvenna í íslenska hugbúnaðarheiminum.

Konur eru 38% starfsmanna Plain Vanilla, sem telst með hærra móti meðal fyrirtækja í hugbúnaðargeiranum að sögn Söndru Hlífar Ocares, sem starfar sem lögmaður hjá Plain Vanilla. Hún segir fyrirlesarana hafa veitt eitt innsýn inn í sín daglegu störf. „Við vildum vekja athygli á störfum kvenna innan hugbúnaðargeirans. Það hefur verið viðloðandi að þetta sé karlageiri. Við vildum því benda á þau margvíslegu störf sem unnin eru hjá okkur ásamt því að sýna fram á þörfina fyrir fleiri konur í geiranum. Það eru nóg af störfum fyrir bæði kyn í hugbúnaðargeiranum.“

Fjórar konur úr fyrirtækinu héldu tölu á viðburðinum. Bergþóra Benediktsdóttir starfsmannastjóri fór yfir tölfræðiúttekt um Plain Vanilla og hugbúnaðargeirann í heild. Vala Halldórsdóttir, aðalritstjóri QuizUp kynnti starfsemina. Í framhaldi voru Berglind Ósk Bergsdóttir, Android forritari, og Stefanía Bjarney, yfir gagnavísindum, með kynningu um störf sín. Að fyrirlestrum loknum var gestum boðið í heimsókn á skrifstofur Plain Vanilla

„Það hefur orðið aukning meðal kvenna í þessum greinum í háskólunum. Fleiri konur eru að fara til dæmis í tölvunarfræði og hlutur þeirra í hugbúnaðargeiranum er smám saman að aukast . Það þarf þó að opna þetta samtal og ræða. Það hefur auðvitað sýnt sig að góð blanda af báðum kynjum hentar alls staðar. Það á líka við í hugbúnaðargeiranum. Það er stefna Plain Vanilla að vera með hæfasta starfsfólkið og með það að leiðarljósi þurfum við góða blöndu af konum og körlum,“ segir Sandra Hlíf.