*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 25. september 2015 14:22

Nói Siríus átjánfaldaði hagnaðinn

Sælgætisgerðin Nói Siríus hagnaðist um næstum 71 milljón króna í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nói Siríus hagnaðist um tæplega 71 milljón króna á síðasta ári og nærri átjánfaldaði hagnaðinn milli ára, en ári fyrr nam hann tæplega 4 milljónum króna.

Sölutekjur fyrirtækisins námu 2.850 milljónum króna og jukust um 91 milljón króna frá fyrra ári. Aftur á móti jukust rekstrargjöld einnig um 62 milljónir króna á milli ára, en þau námu nú 2.607 milljónum króna. EBITDA félagsins nam nú rúmlega 243 milljónum króna en var 214 milljónir króna á síðasta ári.

Eignir Nóa Siríuss námu 2.566 milljónum króna í lok ársins, en þar af námu fasteignir og lóðir 892 milljónum króna og birgðir námu 618 milljónum króna. Skuldir námu 1.914 milljónum króna og var eigið fé félagsins því 651 milljón króna í árslok.

Fjöldi hluthafa í árslok var 26 en aðeins tveir hluthafar áttu yfir 10% hlut í fyrirtækinu. Það er FIST ehf. með 27,9% eignarhlut og Lynghagi ehf. með 24,4% hlut.

Finnur Geirsson er forstjóri Nóa Siríusar.

Stikkorð: Nói Siríus