Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar höfðu neikvæðar tölur af auknu atvinnuleysi í Bandaríkjunum nokkur áhrif á markaði.

Það hafði þó ekki mestu áhrifin því hlutabréfamarkaðir, bæði á meginlandi og eins á Norðurlöndunum lækkuðu þó strax við opnun markaða í morgun.

Bankar og fjármálafyrirtæki lækkuðu nokkuð í dag en mest var þó lækkunin hjá finnska símaframleiðandanum Nokia en bréf í félaginu lækkuðu um tæp 10% eftir að félagið gaf í dag út afkomuviðvörun fyrir þriðja ársfjórðung.

Félagið sagðist ekki hafa efni á því að fara út í verðstríð við helstu keppinauta sína um þessar mundir og að sögn Reuters er það álit flestra greiningaraðila að úr þessu megi lesa mikil veikleikamerki í rekstri félagsins.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 2,3% en hafðu um tíma lækkað um 2,7%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,4%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,3%,í Osló lækkaði OBX vísitalan um 3% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,7%.